Heggstaðanes

Nesið á milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar kallast Heggstaðanes og er bæjaröð út nesið báðum megin. Nesið er grösugt, en nokkuð mýrlent með melholt inn á milli. Hæst er nesið yst á milli bæjanna Heggstaða og Bálkastaða sem eru ystu bæir nessins hvoru megin. Hlunnindi hafa alltaf verið mikil á nesinu, reki, æðarvarp og selveiðar. Yfir mitt nesið liggur ágætur vegur. Náttúra og dýralíf er fjölskrúðugt á nesinu, víða liggja selir á steinum og í bjarginu yst á nesinu er stórt varp sjófugla. Þá heldur skarfur sig oft á skerjum norðarlega á nesinu.

Heggstaðanes, horft til Hvammstanga

Hvammstangi og Þrælsfell séð frá Heggstaðanesi. Mynd: GMHK

Vegur 702 að austanverðu til Heggstaða, eða vegur 702 að vestanverður til Bálkastaða.

Vegna æðarvarps er leiðin lokuð frá 15. apríl til 14. júlí.

Við ströndina vestan og austan á nesinu eru toftir, ummerki útræðis og janfvel búsetu sem var þarna víða.

10 km, um 3 klst., hækkun um 130 m.

Leiðarlýsing

Gangan hefst við bæinn Heggstaði og haldið er í norðurátt til Fögruvíkur. Hægt er að ganga alveg fyrir nesið ef menn eru vanir og ekki lofthræddir. Annars er hægt að sleppa ströndinni, halda upp á ranann og skoða fuglabjargið sem er nyrst og í suðausturhluta nessins að ofan. Að vestanverðu er gengið með fjörunni en þar er gömul leið þegar sunnar dregur. Nálægt Snagalæk má fara yfir hálsinn aftur til Heggstaða og ljúka þannig hringleiðinni.

Einnig er hægt að byrja gönguna við Bálkastaði og má leggja faratækjum á bæjarhlaðinu.


Svæði

Map
Menu