Hindisvík á Vatnsnesi

Hindisvík er gömul hlunnindajörð og býli yst á Vatnsnesi. Víking er breið og fögur og lokuð af hluta með eyjum og skerjum fyrir utan víkina. Fagurt er yfir að líta í Hindisvík og þar er fjölbreytt fuglalíf og mikið af sel. Í kringum miðja 20. öld bjó í Hindisvík séra Sigurður Norland. Hann hafði mikinn áhuga á að byggja upp í Hindisvík og reisti meðal annars tvö íbúðarhús á staðnum. Hindisvík hafði verslunarleyfi og var þar lengi stunduð verslun. Sigurður ræktaði sitt eigið hrossakyn, Hindisvíkurkynið sem er löngu orðið landsþekkt. Sigurður lét friða selinn í Hindisvík og er þar eitt stærsta sellátur landsins.

Hindisvík hefur verið í eyði um áratuga skeið, en þar hafa afkomendur og eigendur jarðarinnar sumarhús. Um skeið var mikil umferð ferðamanna á staðnum sem vildu njóta útiveru og náttúru. En fyrir fáum árum tóku eigendur ákvörðun um að loka staðnum fyrir umferð. Enda er þar engin þjónusta, salerni né merktir stígar og var umferðin farin að hafa mikil neikvæð áhrif á náttúruna og hegðun selastofnsins.


Svæði

Map
Menu