Fréttir

Gömlu Gullin með frábærar viðtökur á Hrafnagili

Handverkshátíðin á Hrafnagili fór fram í 23. sinn dagana 6.-9. ágúst s.l. og voru verðugir fulltrúar frá Húnaþingi vestra þar að sýna vörur sínar undir nafninu "Gömlu Gullin". Það eru þau Guðmundur Ísfeld, Jóhanna Jósefsdóttir og Unnur Haraldsdóttir.

Guðmundur Ísfeld var með ýmsar vörur úr smiðju sinni, s.s. pizzaskera, ostaskera og fleiri áhöld, ásamt hálsmenum úr kýrbeini og eyrnalokka úr krummaklóm. Jóhanna Jósefsdóttir var með púðaver, handsútaðar gærur, armbönd úr hrosshári, hálsmen úr hrosshóf og hrosshári, hálsmen úr hrútshorni og hrosshári og eyrnalokka úr hóf, kýrhorni og lituðu beini. Unnur Haraldsdóttir var með gærur, gærutrefla og tölur úr hornum og beinum.

Þau voru öll sammála um að sýningin hafi verið skemmtileg og viðtökur góðar. „Ég held að vörurnar okkar hafi vakið mikla athygli og við fengum mikið hrós fyrir vandaðar vörur“, sagði Unnur. Jóhanna sagði að púðarnir sínir hafi fengið sérstaklega mikla athygli á sýningunni ásamt pizzuhnífum Guðmundar og gærukrögum og –treflum Unnar. Guðmundur var ánægður með viðbrögð við vörum sínum. „Mjög margir hældu mér fyrir gott handbragð og vandaða vinnu. Margir sem komu voru búnir að fylgjast með vörunum mínum á Facebook og vildu handfjatla gripina. Pizzahnífarnir fengu mjög mikla athygli.“, sagði Guðmundur.

Flott handverk í heimabyggð sem fæst meðal annars í Gallery Bardúsa á Hvammstanga.

Unnur Haraldsdóttir tók myndir af básnum sem hún leyfði Visithunathing.is að birta.

 

 

 

 

 

 

 


Svæði

Map
Menu