Fréttir

Heimsókn ráðherra

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála var á ferðinni í Húnaþingi vestra í dag, föstudaginn 11. apríl. Meðal annars kíkti hún við á Selasetri Íslands á Hvammstangaog fundaði á Gauksmýri með aðilum sveitarstjórnar og ferðþjónustunnar á svæðinu. En ráðherra er á ferð um Norðurland vestra að kynna sér stöðu og framgang ferðamála á svæðinu.

Fram kom í máli ráðherra að mikill vilji er innan ríkisstjórnar að styðja vel við ferðaþjónustu um allt land.  Nefndi hún að lögð hefði verið mikil vinna innan ráðuneytis í að útfæra náttúrupassa, og með gjaldtöku af ferðamönnum væri ætlunin að afla fjár til að bæta aðgengi og tryggja verndun íslenskrar náttúru og öryggi ferðamanna. Fram kom að frumvarp um náttúrupassa verður ekki lagt fram á yfirstandandi þingi heldur er stefnt á að vinna það áfram í sumar og leggja það fram í byrjun haustþings. Í staðin hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja sérstaka aukafjárveitingu til uppbyggingar ferðamannastaða í sumar. Ragnheiður Elín sagði þörf fyrir úrbætur víða brýna og ekki hægt að bíða eitt sumar í viðbót með framkvæmdir.

Á fundinum kom fram að Átakið Ísland allt árið hafi sannarlega skilað sér inn á svæðið og mikil aukning sé á fjölda ferðamanna á milli ára yfir veturinn. Víða er svo komið við vinsæla staði í Húnaþingi vestra að brýnt er að ráðast í úrbætur svo ekki verði gengi nær landinu og var svæðið við Hvítserk nefnt í því samhengi.  Þá var ítrekuð sú mikla þörf sem er á því að lagfæra og viðhalda veginum um Vatnsnes. Umferð ferðamanna um svæðið hefur margfaldast á örfáum árum og nauðsynlegt að margfalda alla þjónustu við veginn frá því sem er í dag.
Ráðherra sagði að allar ábendingar og athugasemdir varðandi ferðamálin væru teknar alvarlega innan ráðuneytis og yrðið skoðað hvað hægt væri að gera til úrbóta.

Frá Gauksmýri lá leið ráðherra á Blönduós og þaðan í Skagafjörðinn þar sem áfram er fundað með ferðaþjónustunni á svæðinu.  Ánægjulegt er að ráðherra láti ferðaþjónustuna á svæðinu sig varða og hlusti á raddir þeirra sem sinna þessari mikilvægu atvinnugrein á svæðinu.


Svæði

Map
Menu