Fréttir

Hannah Kent: Náðarstund

Í haust kom út bókin Náðarstund eftir Hannah Kent í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar. Í bókinni fjallar Hannah um síðustu aftökuna á Íslandi árið 1830 og hina skelfilegu atburði á Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828 sem þau Agnes, Friðrik og Sigríður voru dæmd fyrir. Morðið og bruninn á Illugastöðum urðu strax landsþekktir atburðir og má segja að æ síðan hafi þeir verið greyptir í þjóðarsálina. Samtímafólk vitnar til aftökunnar í heimildum og fjöldi greina og bækur hafa verið skrifaðar um atburðina. Þá var gerð íslensk bíómynd um Agnesi. Bókin er skrifuð út frá sjónarhóli Agnesar, eins sakamannsins sem dæmd var til dauða fyrir morðin á Natani og Pétri á Illugastöðum.

Í viðtali við höfund bókarinnar kemur fram að hún varði tveimur árum í að rannsaka gögn áður en hún byrjaði að skrifa söguna og að hún byggir lýsingar á því sem gerðist á Illugastöðum á frásögn Agnesar, eins og þær birtast í dómsskjölum.
Bókinni hefur hvarvetna verið vel tekið en hún kom samtímis út í Ástralíu, Bretlandi og Bandaríkjunum vorið 2013 og hefur nú verið þýdd á fleiri tungumál. Þegar er búið að selja kvikmyndaréttinn að bókinni og er ætlunin að Jennifer Lawrence leiki Agnesi.

Bókin hefur fengið góða dóma hér á landi og augljóst að landinn hefur enn áhuga á að kynna sér þetta stóra sakamál.


Svæði

Map
Menu