Fréttir

Styttist í opnun Sjávarborgar

Sveitasetrið Gauksmýri opnar á næstunni nýjan veitingastað á Hvammstanga og hefur veitingastaðurinn fengið nafnið Sjávarborg. Veitingastaðurinn verður staðsettur á efri hæð Selaseturs Íslands og er nú unnið hörðum höndum að því að breyta húsnæðinu í veitingastað.

Sjávarborg áformar að opna í hádeginu um mánaðarmótin febrúar/mars næstkomandi og verður þar, til að byrja með, sami matseðill og er í skólamötuneyti Grunnskóla Húnaþings vestra, sem Gauksmýri rekur í húsnæði Sjávarborgar. Í hádeginu verður boðið uppá þrennskonar fyrirkomulag sem hægt er að velja á milli; 1) að kaupa staka máltíð, 2) að kaupa kort sem gildir fyrir tíu máltíðir og 3) að vera í áskrift alla virka daga og fá sendan reikning mánaðarlega. Frekar upplýsingum um þetta verður komið á framfæri þegar ljóst er hvenær
staðurinn verður tilbúinn til opnunar. Vonast er svo til að opnun veitingastaðsins á kvöldin og um helgar verði fyrir komandi páska.

 Framkvæmdir í Sjávarborg

Nafnið Sjávarborg vísar aftur í tímann í söguna um húsið Sjávarborg eða Möllershús sem stóð á sjávarkambinum þar sem síðar var byggt frystihús Kaupfélags Vestur Húnvetninga. Húsið var flutt þrisvar og stendur nú við Spítalastíg. Það er talið vera elsta húsið á Hvammstanga.

Fleiri framkvæmdarmyndir má skoða á Norðanátt.is.

 

 

 


Svæði

Map
Menu