Fréttir

Vinnustofa um afþreyingarferðamennsku

Dagana 29. og 30. apríl n.k. verður haldin vinnustofa um afþreyingarferðamennsku á Ásbrú. Vinnustofan er mikilvægur vettvangur fyrir samtal milli aðila sem koma að afþreyingarferðamennsku (adventure tourism) við Norður-Atlantshaf, en undir þann flokk fellur nær öll afþreying sem á sér stað í náttúrunni, s.s. kajakferðir, gönguferðir, hestaferðir, flúðasiglingar o.s.frv.

Viðfangsefni vinnustofunnar eru annars vegar staða afþreyingarferðamennsku við Norður Atlantshaf, helstu ógnanir og tækifæri og hvernig greinin getur unnið betur saman að sameiginlegum markmiðum. Hins vegar eru gæða- og öryggismál í brennidepli þar sem m.a. verður farið með þátttakendum í gerð öryggisáætlna.

Afþreyingarfyrirtækin, auk gististaða, forsvarsmanna ferðamálafélaga, sveitarfélaga og ýmis konar klasasamstarfs eru hvattir til að nýta sér þetta einstaka tækifæri, taka þátt í umræðunni og vinna að gæða- og öryggismálum greinarinnar. Nánar er hægt að lesa sér til um vinnustofuna hér.

Verkefnið er styrkt af NATA (North Atlantic Tourism Association) og hafa nú þegar fjölmargir aðilar frá Grænlandi boðað komu sína til að taka þátt í umræðunni.

Þátttökugjald er 19.790 krónur. Innifalið í þátttökugjaldinu eru vinnustofurnar, veitingar á fundartíma, sameiginlegur kvöldverður þann 29. apríl, gisting í allt að tvær nætur á Ásbrú og ferðakostnaður. Skráningafrestur er til 24. apríl n.k.

 

 

 


Svæði

Map
Menu