Fréttir

Laugarbakkaskóli seldur

Mynd fengin á www.hoteledda.is
Mynd fengin á www.hoteledda.is

Í haust þá fluttist öll grunnskólakennsla frá Laugarbakka í Miðfirði til Hvammstanga en um áratugaskeið hefur verið kennt á tveimur eða fleiri stöðum í sveitarfélaginu. Unnið hefur verið að þeirri sameiningu í nokkur ár og samhliða hefur verið leitað að nýrri starfsemi í Laugarbakkaskóla með það í huga að eignirnar yrðu seldar.

Ánægjuleg niðurstaða af allri þessari vinnu er nú komin í ljós en félag í umsjón hjónanna Tómasar Kristjánssonar og Sigrúnar Guðmundsdóttur hefur fest kaup á Laugarbakkaskóla af Húnaþingi vestra. Það er að segja öll skólahús með kennslustofum, heimavist, mötuneyti, íþróttahúsi og íbúðum, auk einbýlishúss og parhúss. Heildarflatarmál fasteignanna er nærri 4.000 fermetrar.

Um áratunga skeið hefur Hótel Edda rekið sumarhótel í skólahúsnæðinu en á því verður nú breyting. Nýir eigendur stefna á miklar endurbætur á húsnæðinu með það að markmiði að efla þar hótelrekstur og einnig á að standsetja á svæðinu fjölnotahús sem hægt verður að nýta fyrir ráðstefnur og fleira. Markmið nýrra eigenda er að halda úti heilsárshótelrekstri og vonast er til að með rekstrinum skapist 6-8 heilsársstörf og allt að 16 störf á háannatíma ferðaþjónustunnar. Húsnæðið verður afhent nýjum eigendum þann fyrsta október 2015.

Sjá einnig á vef Húnaþings vestra.


Svæði

Map
Menu