Fréttir

Rjúpnaveiðar haustið 2014

Samkvæmt vef Umhverfisstofnunar þá hefjast rjúpnaveiðar í ár þann 24. október og er heimilt að veiða í samtals tólf daga sem skiptast á fjórar þriggja daga helgar fram til 16. nóvember.

Veiðitímabilið skiptist á fjórar helgar:
•    Föstud. 24. okt. til sunnud. 26. okt. Þrír dagar.
•    Föstud. 31. okt. til sunnud. 2. nóv. Þrír dagar.
•    Föstud. 7. nóv. til sunnud. 9. nóv. Þrír dagar.
•    Föstud. 14. nóv. til sunnud. 16. nóv. Þrír dagar.

Veiðimenn eru hvattir til að hætta við veiðiferð ef veðurspá gefur tilefni til og huga vel að útbúnaði og öryggismálum. Hver og einn veiðimaður er ennfremur hvattur til að veiða ekki meira en þörf er á og stunda þannig hófsamar veiðar. Veiðimenn eru ennfremur hvattir til að kynna sér 112 snjallsímaforritið á www.safetravel.is. Forritið er afar einfalt í notkun og hefur tvennskonar virkni. Annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða. Hinsvegar að skilja eftir sig „slóð“ sem kemur að miklu gagni ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram. Forritið leysir ekki af hólmi önnur öryggistæki eins og neyðarsenda, talstöðvar og áttavita en nýtist vel veiðimönnum sem nota snjallsíma.

Sveitarfélagið Húnaþing vestra hefur gefið út tilkynningu um fyrirkomulag rjúpnaveiða á afréttarlöndum Húnaþings vestra. Sjá nánar á www.hunathing.is.
Þar kemur m.a. fram að sveitarfélagið selur veiðileyfi á afréttarlönd sveitarfélagsins og eru veiðileyfin til sölu á skrifstofu Húnaþings vestra á Hvammstanga, hjá Ferðaþjónustunni í Dæli og Söluskálanum á Hvammstanga og verð fyrir hvert leyfi er kr. 9.000.-

Einnig kemur fram í tilkynningu sveitarfélagsins að rjúpnaveiði í löndum Syðra-Kolugils, Hrappsstaða, Gafls og Lækjarkots í Víðidal verður eins og undanfarin haust takmörkuð. Veiðileyfi verða eingöngu seld hjá Ferðaþjónustunni Dæli sími 451 2566. Þar er líka tilboð á gistingu á rjúpnaveiðitímanum. Netfangið er daeli@daeli.is. Allar upplýsingar um rjúpnaveiðar á þessu svæði eru veittar hjá Ferðaþjónustunni í Dæli.


Svæði

Map
Menu