Fréttir

Sólmyrkvi 20. mars

Sólmyrkvi 2015
Sólmyrkvi 2015

Mesti sólmyrkvi sem hefur verið sjáanlegur á Íslandi í rúm sextíu ár verður að morgni föstudagsins 20. mars næstkomandi en um er að ræða svokallaðan almyrkva. Er þetta síðasti almyrkvi á sólu sem sést frá Evrópu til 12. ágúst 2026.

Í Færeyjum og á Svalbarða sést almyrkvi en á Íslandi sést verulegur deildarmyrkvi.

Sólmyrkvinn stendur yfir um tvær klukkustundir og á Stjörnufræðivefnum sjást tímasetningar eftir landshlutum, en deildarmyrkvi hefst hér í kringum kl. 08:41 og lýkur í kringum kl. 10:44.

Sólin er lágt á lofti föstudagsmorguninn 20. mars svo gæta þarf þess að hvorki fjöll né byggingar skyggi á hana þegar myrkvinn stendur yfir. Þegar myrkvinn er í hámarki rökkvar lítillega (mest á Austurlandi) og er þá mögulegt að koma auga á reikistjörnuna Venus austan við sólina (vinstra megin sólar).

Á vef Stjörnufræðifélagsins, stjornufraedi.is, segir að nauðsynlegt sé að nota viðeigandi hlífðarbúnað, svo sem sólmyrkvagleraugu og sólarsíur, til að fylgjast með myrkvanum.

Ítarlegri upplýsingar er að finna á Stjörnufræðivefnum, www.stjornufraedi.is.

 

 

 


Svæði

Map
Menu