Miklagil

Einn af ótal fossum og flúðum í Miklagili. Mynd: A
Einn af ótal fossum og flúðum í Miklagili. Mynd: A

Miklagil þótti fyrrum einn versti farartálmi á leið vegfarenda um Holtavörðuheiði. Gilið liggur frá suðvestri til norðausturs skammt sunnan við eyðibýlið Grænumýrartungu og liggur þjóðvegurinn yfir upphaf gilsins (brú).

Leiðarlýsing

Afleggjari er af þjóðveginum niður að Hrútafjarðará norður við Grænumýrartungu. Ekið er þar eftir slóða uns komið er að hliði á girðingu rétt við ána. Þaðan hefst ganga og er farið eftir vegslóða sem lýkur við girðingu en þar er til staðar príla sem farið er yfir. Stuttur gönguslóði tekur þar við og er honum fylgt í suðurátt og farið yfir lækinn í Litlagili og að Miklagili. Þarna er fallegt um að litast. Gengið er meðfram ánni norðanmegin en fljótlega farið upp á gilbrúnina sem fylgt er eftir það. Gilið er víða þröngt og mikilfenglegt og liðast áin eftir botninum með nokkrum flúðum, fossum og djúpum hyljum. Ofarlega í gilini er fallegur foss með klettadrangi á fossbrúninni. Heita bæði fossinn og drangurinn Jörundur og er sagt að þar hafi tröllkarl dagað uppi. – Ekki er langt á þjóðveginn. Gengið er sömu leið til baka, nema ef menn hafa lagt af stað á tveimur bílum og lagt öðrum við þjóðveginn rétt hjá brúnni yfir Miklagil.

Gangan tekur um 2 klst. ef rólega er farið yfir, hækkun um 150 m., 3 klst. sé gengið fram og til baka.

Varast ber að fara of nærri gilbrún Miklagils, en þar er víða þverhnipt.

 Göngugarpur við Miklagil

Göngugarpur hvílist í nágrenni við Miklagil. Mynd: Anna Scheving


Svæði

Map
Menu