Borgarvirki

Borgarvirki er klettaborg er stendur á ásnum milli Vesturhóps og Víðidals og er um 177 metra yfir sjávarmáli. Talið er að Borgarvirki sé gosstapi sem myndaðist við eldgos á hlýskeiði ísaldar. Efst í virkinu er 5-6 metra djúp skeifulaga dæld með skarð er snýr til austurs. Þar er hlaðinni grjótveggur frá fornu en hann var endurhlaðinn á árunum 1940-50 og víðar á Borgavirki má sjá hleðslur. Borgarvirki er friðað vegna minja, en inn í virkinu eru rústir af tveimur skálum og skammt frá þeim hruninn brunnur.

Samkvæmt sögnum var Borgarvirki nýtt sem virki á þjóðveldisöld. Og segir sagan að þar hafi Víga-Barði Guðmundsson í Ásbjarnarnesi verið á ferð. Hann deildi við Borgfirðinga eins og segir frá í Heiðarvíga sögu. Sagt er að óvinir hans hafi komið að sunnan með óvígan her.  En Barði barst af því njósnir og kom sér og sínum mönnum fyrir í Borgarvirki, þar sem ómögulegt reyndist að sækja að honum. Tóku Borgfirðingar á það ráð að ætla að svelta Barða og hans menn inni. Þegar matinn þraut tóku virkisbúar sig til og hentu síðasta mörsiðrinu (sláturkeppnum) út úr virkinu. Voru þá Borgfirðingar vissir um að Barði hefði nægar vistir og héldu heim á leið. Frábært útsýni er úr Borgarvirki og þar hefur verið sett upp útsýnisskífa. Í tengslum við unglistahátíðina Eldur í Húnaþingi er haldnir einstakir tónleikar í Borgarvirki í júlí hvert ár.


SvŠ­i

Map
Menu